Sunnudagur, 10. desember 2006
Nú er úti veður vont verður allt að klessu. Og allt varð að klessu
Síðastliðna nótt gekk mikið fárviðri yfir landið og fengum við okkar skerf af því hér í Borgarnesi. Um ellefuleitið í gærkveldi byrjuðu klæðningarplötur að fjúka af svokallaðri Héríhöll í gamlabænum og uppúr því varð allt vitlaust. Það fauk gámur í eyjunni og hurðir sviptust af húsum þar, ruslakör fuku út á götu og gluggi brotnaði í ráðhúsinu og stauraskreytingar brotnuðu. Þá hélt maður að nóg væri komið en þá fauk stóra jólatréð á Kveldúlfsvelli um koll og um svipaðleitt splundraðist nýbyggt hús uppí Bjargslandi. Jólaskraut hefur víða látið á sjá og eitthvað varð um skrámur á fólki, þegar reynt var að bjarga því sem bjargað var á byggingarstað hússins sem splundraðist. Vindhraðinn undir Hafnarfjalli fór í 60 metra í kviðum. Dagurinn í dag fór í það að reisa við stóra jólatréð og skipta út perum á því. Næstu dagar fara svo í það að lappa uppá restina af skrautinu.
Laugardagur, 9. desember 2006
Allt að verða vitlaust
Nú er yfir landinu dýpsta lægð síðan 1940 að því að talið er. Siggi Stormur spáir bandbrjáluðu veðri í nótt og það stefnir allt í það að ég verði á vakt í nótt. Fólki á höfuðborgarsvæðinu hefur verið hvatt til að taka niður jólaskraut og fergja lausa muni auk þess sem björgunarsveitir og lögregla verða á vakt í nótt. Ekki ferðaveður í kortunum og fólk varað við að vera á ferðinni enda er þetta t.d. versta áttin undir Hafnafjalli. Ég vonast þó til þess að jólaskraut Borgarbyggðar haldist svo ég þurfi ekki að byrja uppá nýtt á mánudaginn.
Fimmtudagur, 7. desember 2006
Endalaust rugl alstaðar
Ég er kominn með leið á þessu endalausa ströggli og rugli endalaust um sömu hlutina. Hver er ekki komin með leið á RÚV umræðunni sama á hvaða skoðun sem maður er á. Hver er ekki komin með leið á umræðunni um Árna Jonsen eða málþófi Samfylkingarinnar. Ég er ekki að segja að það megi ekki ræða málin, umræða er af hinu góða. En, en endalaust röfl og endurtekningar eru einfaldlega til þess falinn að drepa niður áhuga almennings og leiða yfirleitt til verri niðurstöðu og málamyndana. Við höfum ekki efni á endalausum málamyndunum t.d benti formaður VG á málamyndun í samgöngumálum í Kastljósi kvöldsins hann vildi fá 2+1 veg frá Rvík til Selfoss í stað 2+2 vegar þar sem fyrrnefnda lausnin kostar aðeins 1/3 þeirrar seinni. En hve mikið dýrari verður hún til framtíðar?
Sunnudagur, 3. desember 2006
Kveikt á jólatré Borgarbyggðar
Í dag er fyrsti í aðventu og samkvæmt hefð er þá kveikt á jólatrénu við Kveldúlfsvöll. Ég náði að klára að skreyta Kveldúlfsvöllinn með því að draga alla fjölskylduna út í morgunn og við skreyttum saman. Í gær vorum við feðgarnir að skreyta Landnámssetrið og munum halda því áfram í næstu viku. Þar á að skreyta frá grunni uppí mæni og verður Kjartan væntanlega mest skreytti Vestlendingurinn í ár. Jólahlaðborðið í Munaðarnesi heppnaðist með afbrygðum vel og þrátt fyrir hefðbundinn matseðil þá var maturinn mjög góður. Ég hitti þar æsku félaga minn sem ég hef ekki hitt í mörg ár og reyndist hann vera innankoppsmaður í Heimdalli.
Laugardagur, 2. desember 2006
Jólahlaðborð í Munaðarnesi
Er enn í skrauti og hvergi nærri búinn, ætla þó að reyna að klára sem mest fyrir kl 17.oo á morgun. Ég hætti snemma í dag vegna þess að ég er að fara á jólahlaðborð með góðum hóp fólks. Vona að maturinn verði góður og að ég sofni ekki ofaní súpuna.
Föstudagur, 1. desember 2006
Aðventan nálgast
Ég var það upptekin við skreytingar í dag að ég hvorki heyrði né sá nokkrar fréttir þannig að heimurinn gæti í raun hafað farist í dag án þess að ég vissi af því. Horfði þó á hluta af rauðanefs dagskránni gott málefni þar á ferð. Það var miklu áorkað í dag og verður vonandi svipað gengi á morgun en þá er stefnan tekin á að skreyta Landnámsetrið og klára jólatrén. Annars hafa bæjarbúar lyft Grettistaki í dag hvað skreytingar varðar og bærinn er allur að fá á sig hátíðlegan blæ. Lífið ætti að komast í fastar skorður aftur á mánudaginn en þangað til verður tilveran hálfgerð Kleppur hraðleið. Allir út að skreyta aðventan nálgast óðfluga.
Fimmtudagur, 30. nóvember 2006
Frjálslyndir á flugi
Ótrúlegt nokk að Frjálslyndir haldi dampi og auki fylgi sitt vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum á sama tíma og þeir keppast við að afneita stefnu sinni. Það væri skiljanlegt ef Frjálslyndir tækju rótæka þjóðernishyggju upp á arma sína vegna vinsælda í ýmsum Evrópu löndum og þeim stuðningi sem virðist vera við þá sömu stefnu hér heima, en það sem mér finnst ótrúlegt er að þeir haldi dampi á sama tíma og þeir virðast vera að draga í land. Vinsældarpólitík hefur verið vinsæl meðal Samfylkingarinnar sem hafa mótað stefnu sína eftir skoðanakönnunum frekar en nokkur annar flokkur. Það er spurning hvort Frjálslyndir fylgi í kjölfarið?
Miðvikudagur, 29. nóvember 2006
Hefnd blaðburðarfjölskyldunnar 1. hluti
Mér til mikillar furðu fékk ég viðbrögð við persónulegri gremju minni yfir komutímum Fréttablaðsins sem ég skrifaði um í gær. Ég veit ekki hvort það var skrifað í eigin nafni, fyrir hönd blaðburðarfjölskyldunnar eða er stefna Fréttablaðsins en mér finnst þó lámark að skrifaundir í eigin nafni. Það kom mér þó nokkuð á óvart að fá þessar ákúrur frá þessum manni og vakti það mig til umhugsunar á, þessum hlerunartímum, hvort það sé virkilega kvartað svo mikið yfir þessum tilteknu blaðberum að þeir stundi vakt á netinu til þess að geta svarað fyrir sig. Þegar ég skrifaði þennan pistil í gær þá var það vegna gremju. Ég ætlaði ekki í neinn persónuskæruhernað gegn blaðberanum. Það var ástæðan fyrir því að ég nafngreindi þau ekki eða persónugerði á nokkurn hátt. Svarið sem ég fékk frá blaðburðarfjölskyldunni getur í bestafalli talist kjánalegt en gæti líka flokkast sem ákveðin innrás í einkalíf þar sem blaðberin hefur ákveðnar trúnaðar upplýsingar sem almenningur og netverjar hafa ekki um þá íbúa sem þeir bera út til. Þannig að ágæta blaðburðarfjölskylda látið mig vera og farið að drullast til þess að bera helvítis blaðið út á réttum tíma og hættið þessu helvítis væli.
Þriðjudagur, 28. nóvember 2006
Jólin eru að koma, helvítis Fréttablaðið
Ég er búinn að vera að setja upp jólatré í allan dag og kem til með að vera í jólaskrauti það sem eftirlifir vikunnar því fyrsti í aðventu er næsti sunnudagur. Borgarbyggð mun líklega verða síðast sveitafélaga til þess að skreyta bæinn en mér finnst það í lagi annar verður fólk komið leið á öllu haferíinu þegar jólin koma. Það má frekar lofa þessu að hanga lengur og lýsa upp skammdegið í janúar. Helvítis Fréttablaðið er farið að berast á öllum tímun sólahringsins. Það kom kl 22.30 á laugardaginn, 14.30 á sunnudaginn 21.30 í gær og er ekki komið enn í dag (19.30) mér finnst þetta ekki ná nokkurri átt og hringdi kvartaði í hádeginu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hringi og kvarta yfir þessu því það hefur borist illa og eftir hentugleika blaðberans. Margir segjast ekki vilja kvarta vegna þess að þetta sé fríblað og fleira í þeim dúr en ég er ekki á sama máli. Fyrir það fyrsta er Fréttablaðið búið að borga fyrir þjónustuna og eiga því rétt á að henni sé framfylgt, í annan stað væri ekkert Fréttablað nema fyrir mína tilstilli þ.e lesenda. Það væru engar augl. tekjur ef engir væru lesendurnir. Og hvað dreifinguna varðar var ég nokkuð sáttur við að þurfa að sækja blaðið út í búð en ég var þó óneitanlega ánægðari með heimburðinn en er þó ekki sáttur við að fá blaðið seint og illa og vera þá búinn að sækja mér eintak. Ég vona þó að þeir sparki ærlega í rassgatið á blaðberanum og hann fari að vinna sína vinnu.
Mánudagur, 27. nóvember 2006
Skert athafnafrelsi, hver er réttur ungs fólks
Fyrir allnokkrum árum þeysti umboðsmaður barna um landið og predikaði fyrirhækkuðum sjálfræðisaldir í 18 ár. Hún hélt því statt og stöðugt að ungmennin myndu ekki tapa réttindum sýnum heldur hið gagnstæða og myndi tryggja ungu fólki lengri lagalegan rétt í umsjá forráða manna. Síðan þá hafa réttindi ungs fólks á aldrinum 16-18 verið skert á marga vegu þrátt fyrir loforð um annað og sjálfstæði og ábyrgðartilfinningu þeirra verið kastað fyrir bý. Og nú er dalað um ábyrgðarleysi og ótillitsemi ungs fólks í umferðinni. Ég er fyrstur til þess að viðurkenna að meðal ungs fólks eru svartir sauðir en þeir eru líka víðar í samfélaginu. Svo ofaná þær hugmyndir að hækka bílprófsaldurinn í 18 ár úr 17 þá dettur þessum háu herrum til hugar að leggja það til að stúlkur og piltar skuli taka prófið á mismunandi tímapunkti þ.e að stelpur fái að taka prófið áfram 17 ára en drengir ári seinna vegna þess að drengir séu óþroskaðri en stúlkur. Já jafnréttisvitund þingmanna er sterk, og svo er verið að velta sér upp úr því hversvegna það sé launamunur á kynjunum, ég held ég hafi fundið rót þess. Einstaklingar eru mis vel búnir undir það að hefja akstur 17 ára og það má velvera að þroski komi þar við sögu í einhverjum tilfellum en það hefur sýnt sig að því fyrr sem fólk byrjar að keyra því mun betri ökumenn mun það verða. Það verða hrikaleg slys í umferðinni en þeim fækkar ekki við hækkun bílprófsaldursins þeim seinkar bara og hvernig á að leysa þá samgönguörðuleika þessi seinkun hefði í för með sér? Það væri eflaust hægt að leysa þá í RVK en hversegna hefur það þá ekki verið gert nú þegar? En fyrir ungt fólk á landsbyggðinni er þetta svipað og að svipta það einfaldlega ferðafrelsinu.